Hinn fullkomni ófullkomnleiki

09. 06. 2014

Ljsmynd: Pressphotos.biz

Ljósmynd: Pressphotos.biz

- Viðtal við Nikhil Nathan Kirsh.

Ég hitti Nikhil á sérlega fallegum vordegi.Hann býður mér inn í minnstu vinnustofu listamanns sem ég hef nokkurn tímann séð þar sem hann er að vinna verkin fyrir næstu sýningu sem opnuð verður í Galleríi Fold, 28. maí. Öllu er haganlega komið fyrir og nánast hver einasti sentimetri fullnýttur.

Við erum umkringd myndum af brotnum og sprungnum líkamshlutum. Brotin og sprungurnar gera verkin framandi og örlítið óhugnanleg en samt svo falleg, lifandi og heillandi. Verkin koma á óvart þótt höfundaeinkenni Nikhils séu bæði sterk og áberandi. Myndirnar eru málaðar með olíu og eru af gifsmótum af hinum ýmsu líkamspörtum. Sumar afsteypurnar hefur Nikhil einnig brotið sjálfur og jafnvel raðað upp á nýtt áður en hann færir myndefnið yfir á strigann. Nikhil er í miðju kafi við að mála stóra mynd af gifslíkama – torso – á gólfi. Búkurinn er brotinn sem minnir á hve tilveran getur verið viðkvæm.

Nikhil sýnir mér fyrstu myndina sem hann málaði úr röðinni sem hann ætlar að sýna núna. Hún er af gifsafsteypu sem hann tók af fæti sambýliskonu sinnar. Hann teygir sig upp í glugga og nær í fyrirmyndina; afsteypu af öguðum fæti dansarans með framrétta ristina og tærnar.

“Eftir að ég gerði afsteypuna varð ég alveg heillaður af henni. Af því hvernig ég var búinn að breyta líkama í hlut og af því hve ófullkomin afsteypan er. Ég er ekki sérlega góður í því að steypa svona og sprungurnar og hrufótt yfirborðið heilluðu mig. Mér fannst þetta vera hin fullkomna afsteypa af einhverjum sem réttir úr ristinni eins og hann mögulega getur og mér fannst afsteypan auk þess vera mun raunverulegri og líflegri en nokkur fullkomin og fáguð eftirmynd. Þegar ég málaði svo mynd af afsteypunni voru það einmitt sprungurnar og brotin sem gerðu myndina áhugaverða. Þetta er líka góð æfing fyrir mig í að viðurkenna og sætta mig við eigin ófullkomnleika og vinna með hann. Það þarf ekki allt að vera fullkomið sem ég geri.”

Ég bendi á að þótt einhverjum gæti fundist myndir af líkamspörtum óhugnanlegar – þótt í raun séu þetta myndir af afsteypum af þeim en ekki líkamspörtunum sjálfum – þá séu myndirnar meira fallegar en ógnvekjandi. Nikhil tekur undir það og segir að í raun sé hugmyndin mun ógnvænlegri en útkoman. Þannig sé það líka í lífinu sjálfu. Við reynum oft að forðast það sem er óþægilegt, það eigi ekki síst við hann sjálfan sem vilji forðast óþægilega hluti í lengstu lög, en þegar maður tekst svo loks á við hræðsluna og tilfinningar sínar og það geri hann með því að koma þeim ástrigann, þá fellur allt í ljúfa löð. Að vissu leyti endurspegla myndirnar það. Með því að takast á við óþægindin getum við að lokum öðlast ró og frið.

Nikhil hefur unnið mikið með mannslíkamann. Það er hann einnig að gera núna þótt allt eins megi líta á myndirnar á sýningunni sem uppstillingar.

“Það er sagt að þegar myndhöggvarar vinni bronsmyndir þá fæðist verkið þegar það er mótað í leir. Svo deyr það með gifsafsteypunni en endurfæðist þegar verkið er speypt í brons. Hjá mér fæðist verkið á striganum og umbreytist um leið. Hin upprunalega fyrirmynd er ekki alltaf greinileg.”

Nikhil sýnir mér mynd af afsteypu af mannsandliti, heillandi en um leið afskræmdu og dýrslegu. “Þetta er pabbi minn þótt það sé ekki eitthvað sem allir sjá. Í augum tveggja ára sonar míns er þetta þó myndin af afa og honum finnst hún ekkert undarleg. Hann veit að afi hans er fyrirmyndin og það nægir honum þótt myndin líkist honum varla á nokkurn hátt. ”Hann sýnir mér þrjár mismunandi afsteypur af andlitum úr sama mótinu. Á þeirri fyrstu eru öll persónueinkenni vel greinanleg, á þeirri næstu má sjá að mótið er örlítið farið að gliðna og á þeirri þriðju hefur andlitið opnast og afmyndast enn meira og greinilegt er að gifsið hefur fundið sér sínar eigin leiðir. Málverkið er af þeirri afsteypu og hreyfingin skilar sér á strigann.

 

“Það eru takmörk fyrir því hve oft hægt er að speypa úr sama mótinu. Í raun skemmist það við endurtekna notkun og afsteypurnar verða bæði hrárri og ófullkomnari eftir því sem þær verða fleiri en um leið verður eitthvað nýtt til, hlutur sem er aðeins laustengdur upprunanum og áhugavert að vinna með áfram og sjá hvert hann leiðir mann.”

Ég hlakka til að sjá útkomuna.

 Margrét Tryggvadóttir

0

Höfundur: Listapósturinn

Athugasemdir

comments